Þann 19. september 1998 var Gæsavatnaskáli hinn
nýi vígður með pompi og prakt.
Félagar Gæsavatnafélagsins voru allir boðaðir
og margir gestir.
Örfáir gestir sáu sér fært að
mæta, en nokkuð fleiri félagar.
Það lofaði góðu þegar fór að
bæta í vind og gera ofankomu eftir því sem
innar dró í Eyjafjörðinn. Veðrið fór
verulega að versna þegar við lögðum upp úr
dalnum.
Á Nýjabæjarfjalli var blindbylur og þurfti
meiraprófið á GPS tækið til að rata
rétta leið í Laugafell. Þar tók nú
að rofa til og eftir því sem nær dró
Gæsavötnum sáust fleiri stjörnur og norðurljós.
Nokkrir bílar komu Eyjafjarðarleiðina, einn frá
Húsavík uppúr Bárðardal og einn frá
Reykjavík um Nýjadal.
Árla næsta morgun hófst lokaundirbúningur
veislunnar með pönnukökusteikingu, súkkulaðihitun
og rjómaþeytingu.
Um miðjan dag, þegar búið var að steikja a.m.k.
300 pönnukökur, voru allir boðaðir inn í svefnskála,
þar sem Halldór setti hátíðina formlega
og bauð gesti velkomna. Magnús Arnarson fór yfir byggingasöguna
og afhenti húsið. Hann fól Halldóri til geymslu
forláta lykil, nákvæma eftilíkingu af Gæsavatnalykli
nema úr tré, rauðan og líklega 100-sinnum stærri.
Stjórnin skipaði skálanefnd sem tók við
af byggingarnefnd á þessari stundu. Nefndina skipa: Ingvar
Sveinbjörnsson, Magnús Arnarson og Smári Sigurðsson.
Nú var sannarlega kominn tími til að skála
fyrir byggingunni, öllum viðstöddum og fjarstöddum
félögum og velunnurum. Dregin var upp Gammel dansk flaska
(sömu tegundar og sú sem varðveitt er um ókomin
ár í horntunnu skálans) og skálað með
viðhöfn.
Halldór rakti síðan sögu Gæsavatna
frá landnámi til dagsins í dag og kynnti tvær
miklar "fróðleiksbækur" um Gæsavötn.
Önnur er heimildabók, samantekt ritara úr ýmsum
bókum og hin er ljósmyndabók með byggingasögunni.
Báðar verða geymdar í skálanum gestum og
gangandi til fróðleiks og skemmtunar.
Eftir kakó og rjómapönnukökur
drifu allir sig út og hlóðu stóra og stæðilega
vörðu
á staðnum þar sem gamli skáli stóð
áður.
Um kvöldið var grillað í yndælis
veðri og lengi setið yfir ljúffengum mat og spjalli.
Til að gera þennan merkisdag enn eftirminnilegri skartaði
næturhimininn sínu fegursta og var eitt samfellt stjörnuþak
og erfitt að að drífa sig til kojs.
Húrra fyrir Gæsavatnaskála... hann
lengi standi...
/ sirrý