Gæsavatnafélagið


Staðsetning
Skálinn
Myndir
Sagan
Umhverfi
Fréttabréf
 

Gróðurfar

Á góðum sumardegi má auðveldlega finna margar plöntutegundir í næsta nágrenni skálans. Árið 1975 gerðu Hörður Kristinsson og Þórir Haraldsson lista yfir plöntur við Gæsavötn. Eyrarrós, gullbrá, fjallakobbi, túnsúra, ólafssúra, fjalladepla, þúfusteinbrjótur og músareyra eru meðal þess sem fyrir augu ber. Gaman væri að bæta við flórulistann og látið endilega vita ef þið finnið nýjar tegundir.

Í kringum 1980 var gerð tilraun með að rækta lúpínu við Gæsavatnaskála og hefur brúskur af lúpínu alltaf seiglast eftir það. Síðustu ár hefur geldingahnappur verið áberandi um Gæsavatnagrundir. Grasfræjum hefur verið sáð í kringum skálann og borið á mjög hóflega og er farinn að sjást árangur af því.

Fuglalíf

Eflaust hafa margar tegundir komið við á leið sinni eitthvert... Eins og hrafninn og gæsin en fastagestir eru kjóinn og snjótittlingurinn. Einnig hefur sést til smyrils, lóuþræls, sandlóu og álfta. Það verður áhugavert að fylgjast með hvort þessar tegundir setjist að í hreppnum.
Afar sjaldgæft er að sjá snæuglu, sem þó er talin sjást öðru hvoru nálægt eða í Ódáðahrauni. En það sakar ekki að hafa upplýsingar um þennan sjaldgæfa fugl hér.

Snæuglan


Snæugla undirbýr lendingu við Gæsavötn.

Snæugla, L: Nyctea scandiaca E: Snowy Owl Þ: Schneeule F: Chouette harfang D: Sneugle FÆ:Snjóugla SP:Búho nival FI:Tunturipöllö.
Stærð: 53-66 cm og rúm 1.900 g að þyngd að meðaltali. Er mest á ferli á daginn og fer einförum utan varptímans. Varptíminn er í maí. Hremmir dýr á stærð við snæhéra og æðarfugl. Hér á Íslandi er fæða hennar helst rjúpur, vaðfuglar og gæsaungar.
Venjulega þögul. Um varptímann endurtekið, hávært krá-á eða rikk, einkum á flugi. Kjörlendi er túndur og fjallheiðar Íshafslanda. Verpur á hólum eða öðrum mishæðum á bersvæði og á Íslandi í úfnum hraunum.
(Fuglar Íslands og Evróp, útg. 1989 og Ísfygla, útg.1996).

 

Vatnalíf

Fróðleikur um skötuorminn
(sem er í útrýmingarhættu í Gæsavötnum)

"Skötuormur er um margt sérstakt dýr og er líf hans mönnum ráðgáta". Hann er rándýr, sem lifir á vatnadýrum. Hann er þó ekki nema 3 til 4 cm að stærð að meðtöldum hala (sem er álíka langur og dýrið sjálft). Hann er heimskautadýr og algengur í sumum vötnum á hálendi Íslands allt upp í 1000 m hæð. Hann er mjög sjaldgæfur á láglendi. Egg ormanna lifa af veturinn og klekjast út á vorin. Skötuormurinn er tvíkynja, því að á sumrin myndar skötuormurinn egg sem hann frjóvgar sjálfur. Litur hans er dökkgrábrúnn.
"Útlit hans hefur sama og ekkert breyst frá því á trías, en það jarðsögutímabil stóð fyrir um 170 milljónum ára".
(Heimildir: Náttúrufræðingurinn ´79. H.H.: Veröldin í vatninu. R.B.: Lífríkið í fersku vatni.)


Fréttir :: Skilaboð :: Tapað-fundið :: Stjórn og nefndir :: Forsíða